Hægt er að sækja Word Perfect útgáfu af skjalinu, sjá upplýsingar um uppsetningu á Netscape fyrir Word Perfect skjöl.

1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 2 . mál.


Nd.
2. Frumvarp til laga


um eignarleigustarfsemi.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)


I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

     Eignarleiga merkir í lögum þessum leigustarfsemi á lausafé eða fasteignum þar sem leigusali selur leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum. Til eignarleigu telst því:
     Fjármögnunarleiga er merkir í lögum þessum þá samningsaðstöðu samkvæmt eignarleigusamningi að leigusali hefur afsalað að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala. Eignarréttur helst þó hjá leigusala.
     Kaupleiga er merkir í lögum þessum þá samningsaðstöðu samkvæmt eignarleigusamningi að leigusali hefur afsalað að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala og jafnframt veitt leigutaka sjálfkrafa eða valkvæðan kauprétt að hinu leigða í lok leigutímans.
     Rekstrarleiga er merkir í lögum þessum þá samningsaðstöðu samkvæmt eignarleigusamningi að fyrir hendi sé eignarleiga sem ekki telst vera fjármögnunarleiga né kaupleiga samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

2. gr.

     Eignarleigustarfsemi samkvæmt lögum þessum telst vera sú starfsemi að veita, hafa milligöngu um eða bjóða fram lánveitingar og ábyrgð á skuldum vegna fjármögnunar annarra aðila.
    Ákvæði laga þessara taka þó ekki til lánveitinga þeirra sem stunda framleiðslu og verslun til venjulegra viðskiptavina.
    Rísi ágreiningur um það hvort starfsemi teljist til eignarleigustarfsemi samkvæmt lögum þessum sker ráðherra úr.

3. gr.

     Eignarleigufyrirtæki merkir í lögum þessum fyrirtæki sem hefur að meginstarfsemi eignarleigu samkvæmt lögum þessum.
     Víkjandi lán merkir í lögum þessum lán sem eignarleigufyrirtæki tekur gegn útgáfu sérstakrar skuldarviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en fimm ár og að við gjaldþrot félagsins eða slit þess fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur félaginu en endurgreiðslu hlutafjár.

II. KAFLI

Eignarleigufyrirtæki.

4. gr.

    Eignarleigustarfsemi er einungis heimil eignarleigufyrirtæki sem hefur starfsleyfi viðskiptaráðherra.
    Skilyrði fyrir veitingu slíks starfsleyfis eru:
1.    Fyrirtækið sé hlutafélag og nemi innborgað hlutafé þess a.m.k. 10 milljónum króna.
2.    Meiri hluti stjórnar félagsins skal vera búsettur hér á landi.
3.    Framkvæmdastjóri félagsins skal vera búsettur hér á landi og vera ríkisborgari Norðurlandaríkis. Skal hann vera fjárráða og með óflekkað mannorð.

5. gr.

    Ráðherra getur í reglugerð sett nánari skilyrði um eignarleigu á fasteignum.

6. gr.

    Eignarleigufyrirtæki er óheimilt að hafa með höndum aðra starfsemi en eignarleigu eða skylda starfsemi á sviði fjármálaþjónustu. Eignarleigufyrirtækið má þó eigi jafnframt stunda verðbréfamiðlun eða rekstur verðbréfasjóðs.
    Tilgangur fyrirtækisins skal skýrt afmarkaður í samþykktum félagsins.

7. gr.

    Eigið fé eignarleigufyrirtækis, að viðbættum víkjandi lánum, skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar 8% af heildarskuldbindingum þess.

8. gr.

    Eignarleigufyrirtæki ber að haga starfsemi sinni á þann veg að viðskiptamenn þess njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör. Skal, að teknu tilliti til hags og þekkingar viðskiptamanna, kappkostað að veita þeim greinargóðar upplýsingar um þá kosti og kjör sem þeim standa til boða.
    Ráðherra getur sett í reglugerð nánari ákvæði um upplýsingaskyldu eignarleigufyrirtækja.

9. gr.

    Eignarleigusamningur skal gerður skriflega.
    Í eignarleigusamningi skal m.a. geta eftirtalinna atriða:
1.    Tegundar þeirrar eignarleigu sem samningurinn kveður á um, sbr. 1. gr. laga þessara.
2.    Lágmarksleigutíma.
3.    Vaxtaákvæða og annars kostnaðar leigutaka af viðskiptunum, þar á meðal lántökugjalds ef um það er að ræða.
4.    Ákvæða um rétt leigusala og leigutaka til riftunar eignarleigusamningsins og um skilmála riftunar.
5.    Hvort, með hvaða hætti og hvaða kjörum leigutaki fái áframhaldandi afnot hins leigða að leigutíma loknum.

10. gr.

    Starfsmönnum eignarleigufyrirtækis ber að gæta þagmælsku um öll viðskipti sem það annast og um persónulega hagi viðskiptamanna þess sem þeir öðlast vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema starfsmönnum sé gert að veita upplýsingar um þessi efni með dómsúrlausn eða sé að lögum skylt að veita þær.

III. KAFLI

Eftirlit.

11. gr.

    Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skal hafa eftirlit með að ekki sé starfrækt eignarleigufyrirtæki nema að fengnu leyfi viðskiptaráðherra, sbr. 4. gr. laga þessara. Bankaeftirlitið skal gæta þess að slík starfsemi fullnægi ætíð að öðru leyti skilyrðum laga þessara, reglugerða og samþykkta sem um starfsemina gilda. Bankaeftirlitinu skal heimill aðgangur að öllum gögnum og upplýsingum hjá eignarleigufyrirtækjum sem varða starfsemina og nauðsynlegar eru við framkvæmd eftirlitsins. Gögn og upplýsingar skulu látin í té í því formi og svo oft sem bankaeftirlitið óskar eftir vegna eftirlits og hagskýrslugerðar. Ákvæði þessarar greinar taka einnig til endurskoðenda eignarleigufyrirtækja.

12. gr.

    Hafi stjórn eignarleigufyrirtækis eða endurskoðandi þess ástæðu til að ætla að eigið fé þess sé undir því lágmarki sem ákveðið er í 7. gr. ber þeim þegar í stað að tilkynna það bankaeftirliti Seðlabanka Íslands.
    Er bankaeftirlitinu berst tilkynning að hætti 1. mgr. eða það telur af öðru tilefni ástæðu til að ætla að eigið fé eignarleigufyrirtækis sé undir lágmarki 7. gr. skal það krefja endurskoðanda eignarleigufyrirtækis þegar í stað um reikningsuppgjör sem hann skal afhenda innan tveggja vikna frá því honum berst krafan.
    Komi fram í reikningsuppgjöri að hætti 2. mgr. að eigið fé eignarleigufyrirtækis fullnægi ekki ákvæðum 7. gr. skal stjórn hlutafélagsins án tafar boða til hluthafafundar til ákvörðunar og afhenda síðan bankaeftirlitinu greinargerð þar sem fram kemur til hverra ráðstafana félagið hyggst grípa af þessu tilefni. Skal bankaeftirlitið þegar afhenda ráðherra reikningsuppgjör endurskoðanda og greinargerð stjórnar ásamt umsögn sinni.
    Þegar ráðherra hafa borist gögn skv. 3. mgr. er honum heimilt að veita hlutaðeigandi eignarleigufyrirtæki frest í allt að fjóra mánuði til þess að auka eigið fé að lágmarki skv. 7. gr. Séu til þess ríkar ástæður að mati ráðherra er honum heimilt að framlengja þennan frest í allt að fjóra mánuði til viðbótar. Heimilt er að stytta eða fella niður áður ákveðinn frest ef ástæða þykir til.

13. gr.

    Ráðherra er heimilt að afturkalla starfsleyfi eignarleigufyrirtækis ef veittur frestur skv. 12. gr. ber eigi árangur eða sýnt þykir að slíta beri fyrirtækinu. Skal ráðherra senda skiptaráðanda á varnarþingi eignarleigufyrirtækisins kröfu um að bú þess verði tekið til skipta.
    Brjóti stjórn ítrekað fyrirmæli laga og reglna settra samkvæmt þeim getur ráðherra með sama hætti og um getur í 1. mgr. þessarar greinar afturkallað starfsleyfi eignarleigufyrirtækis, enda hafi bankeftirlit Seðlabanka Íslands áður gert skriflegar athugasemdir varðandi reksturinn.
    Ráðherra er heimilt að svipta eignarleigufyrirtæki starfsleyfi þegar í stað og um stundarsakir ef hafin er opinber rannsókn á starfsemi stjórnar eignarleigufyrirtækisins vegna athafna hennar í þágu eignarleigustarfseminnar.

14. gr.

    Samruni eignarleigufyrirtækja við annað fyrirtæki er starfsleyfi hefur samkvæmt lögum þessum er óheimill nema að fengnu samþykki viðskiptaráðherra. Að öðru leyti gilda um samrunann ákvæði laga um hlutafélög eftir því sem við getur átt.

15. gr.

    Viðskiptaráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

IV. KAFLI

Viðurlög.

16. gr.

    Það varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að sex mánuðum að starfrækja eignarleigufyrirtæki, sbr. 4. gr. laga þessara, án starfsleyfis viðskiptaráðherra. Sömu refsingu varða brot á II. kafla laga þessara. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
    Með brot skv. 1. mgr. þessarar greinar skal farið að hætti opinberra mála.

V. KAFLI

Gildistaka o.fl.

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þeir sem við gildistöku laga þessara stunda starfsemi sem lög þessi taka til skulu uppfylla ákvæði laganna eigi síðar en sex mánuðum frá gildistöku þeirra. Mæli sérstakar ástæður með því er viðskiptaráðherra heimilt að veita lengri frest, þó aldrei lengri en eitt ár frá því sem ákveðið hefur verið í fyrri málslið þessa bráðabirgðaákvæðis.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er flutt til þess að tryggja að öruggar og sanngjarnar reglur gildi um hvers konar starfsemi á fjármagnsmarkaði og að sams konar reglur gildi um sams konar starfsemi á þessu sviði. Á síðustu árum hafa umsvif eignarleigufyrirtækja vaxið mjög og því brýn þörf orðin á því að setja um þessa starfsemi reglur til þess að tryggja öryggi og eftirlit með þessum viðskiptum.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Lög verða sett um hvers konar starfsemi á fjármagnsmarkaði.“ Og í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum segir: „Sett verða lög um starfsemi á fjármagnsmarkaði utan bankakerfis á grundvelli fyrirliggjandi frumvarpa.“ Þetta frumvarp er eitt þeirra.
    Frumvarpið er samið af nefnd er viðskiptaráðherra skipaði með bréfi dags. 16. febrúar 1988 til að fjalla um og gera drög að frumvörpum um starfsemi á fjármagnsmarkaði.
    Í nefndina voru skipaðir Björn Friðfinnsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, og var hann jafnframt skipaður formaður nefndarinnar, Tryggvi Axelsson lögfræðingur, viðskiptaráðuneytinu, Guðmundur H. Garðarsson alþingismaður, Guðmundur G. Þórarinsson alþingismaður, Kjartan Jóhannsson alþingismaður, Eiríkur Guðnason, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, Sveinbjörn Hafliðason lögfræðingur, Seðlabanka Íslands, Þórður Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
    Vegna anna Guðmundar H. Garðarssonar gat hann eigi mætt nema á fáum fundum nefndarinnar en Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, tók þá sæti hans í nefndinni.
    Frumvarp það, er hér liggur nú fyrir, er árangur af starfi nefndarinnar ásamt frumvarpsdrögum að lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.
    Í upphafi þykir rétt að gera grein fyrir hugtakinu „eignarleiga“ en þar er um að ræða nýtt hugtak í íslensku lagamáli.
    „Leiga“ samkvæmt hefðbundnum skilningi þess orðs er samningur um afnot gegn endurgjaldi, en eignarrétturinn og aðrar skyldur tengdar honum haldast hjá leigusalanum. („Leiga“ merkir einnig leigugjald).
    Samningafrelsi gildir almennt um leigusamninga eins og aðra samninga á sviði samningsréttarins. Þó hefur löggjöfin látið tilteknar tegundir leigusamninga til sín taka og nægir að nefna 1ög nr. 44/1979, um húsaleigusamninga, svo og lög nr. 64/1976, ábúðarlög. Nefndin hefur það verkefni að semja rammalöggjöf um þá samninga sem á ensku nefnast „leasing“-samningar og tillaga er hér um að verði nefndir eignarleiga, þ.e. samheitið. Mikilvægt er að afmarka gildissvið laganna og ganga vel frá skilgreiningum þannig að sem minnstur vafi sé um þær.
    Eignarleiga er sem fyrr segir aðeins samheiti yfir þá starfsemi er lög þessi skulu taka til og er íslensk þýðing á orðinu „leasing“ sem er enskt-amerískt orð að uppruna og þýðir leiga í beinni þýðingu. Orðið „leiga“ á íslensku tekur þó ekki til þess sem í ensku máli er nefnt „leasing“. Rétt er það að eignarleiga er oftast nær ákveðin tegund leigu, en mörg mikilvæg frávik er þar að finna sem gera það að verkum að hún verður að teljast mjög sérstakt leiguform. Þar af leiðandi hefur eignarleiga sérstaka stöðu samningsréttarlega séð, m.a. vegna þeirra sérstöku skilmála sem í samningum þessum er að finna.
    Orðið „leigusali“ er hér notað sem þýðing á enska heitinu „lessor“ og orðið „leigutaki“ sem samsvarandi þýðing á enska orðinu „lessee“. Í frumvarpi þessu er því átt við samningsaðila í gagnkvæmum eignarleigusamningi þegar rætt er um leigusala og leigutaka.
    Lagt er til að eignarleiga verði afmörkuð í löggjöfinni frá því sem venjulegast er nefnt „leiga“. Helstu atriði, sem skilgreiningin veltur á, er að leigusali selur hlut á leigu gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma og samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotaréttinn.
    Þetta tvennt einkennir eignarleigu. Samningar í eignarleigu eru aldrei ótímabundnir, þ.e. að leigutaki geti t.d. skilað hlut að nokkrum dögum liðnum, svo sem er t.d. í bílaleigu, heldur er alltaf um að ræða einhvern lágmarksleigutíma samkvæmt samningnum.
    Í eignarleigu eru einnig alltaf „sérstakir skilmálar“ sem greina þessa samninga glöggt frá venjulegum leigusamningum. Í hinum sérstöku skilmálum eru ákvæði sem flytja ýmsar eignarréttarlegar skyldur frá formlegum eiganda hlutarins til leigutakans þannig að staðan getur orðið slík að leigusali hafi í raun aðeins eignarrétt er svarar til veðréttar í hinu leigða. Með sama hætti verður þá réttarstaða leigutakans svipuð og væri hann eigandi að hlut, utan þess að hinn formlegi eignarréttur og ráðstöfunarheimildin helst hjá leigusala.
    Í eignarleigu þekkjast samningar sem ganga skemur en hér að framan er lýst, t.d. þegar hlutur er seldur á rekstrarleigu sem á ensku nefnist „operating lease“. Þá er markmiðið með hinum sérstöku skilmálum að áskilja eiganda rétt til þess að veita tiltekna þjónustu varðandi hlutinn, svo sem viðhalds- og viðgerðarþjónustu o.fl. þess háttar. Leigutíminn er yfirleitt styttri, enda oftast gert ráð fyrir að hlutir þessir verði endurnýjaðir fljótlega, t.d. vegna örra tækniframfara.
    Rekstrarleigu svipar mest til „venjulegrar leigu“, en hér skilja þó á milli hinir sérstöku skilmálar sem tíðkast í þessum viðskiptum. Rísi ágreiningur um hvort efni samningsins sé með þeim hætti að hann verði ekki talinn vera rekstarleigusamningur og falli ekki undir lögin sker ráðherra úr. Þeim úrskurðum er unnt að skjóta til dómsstóla.
    Í reynd er lítil hætta á að ágreiningur verði þar sem löggjöfin er sniðin að þeirri framkvæmd sem tíðkast hefur.
    Helstu tegundir eignarleigu eru fjármögnunarleiga og rekstrarleiga. Í svonefndri „hreinni“ fjármögnunarleigu er um það að ræða að leigusali hefur það hlutverk að fjármagna kaup viðskiptavina á ýmsum hlutum eða tækjum er hann kann að vanhaga um án þess að láta af hendi hinn formlega eignarrétt. Leigusamningurinn er ævinlega bundinn í lágmarksleigutíma og er miðað við að fjármagnseigandi fái á þeim tíma fjármuni sína endurgreidda, auk arðs og kostnaðar vegna samningsgerðarinnar. Leigutaki tekur á sig verulegar skyldur sem tengjast eignarrétti eiganda og nýtur jafnframt flestra réttinda er eigandi almennt nýtur.
    Innan eignarleiguviðskipta er fjölbreytni fjármögnunarleigusamninga hvað mest og ákvæði þeirra geta verið margvísleg. Sá ruglingur, sem uppi hefur verið varðandi skilgreiningu á hugtakinu eignarleiga, á rætur að rekja til þeirra mismunandi túlkana sem notaðar eru í hinum ýmsu ríkjum heims þar sem þetta samningsfyrirkomulag, svo og ýmis afbrigði af því, þekkist. Þær skilgreiningar, sem í gangi eru, byggjast fyrst og fremst á mismunandi skattmeðferð sem við lýði er. Í mörgum ríkjum hefur sú krafa verið gerð að greina verði milli samninga innan fjármögnunarleigu sem ekki yfirfæra eignarrétt og svonefnda kaupleigusamninga. Kaupleigusamningar gefa kost á yfirfærslu eignarréttarins í lok leigutímans eða gera ráð fyrir að hann færist sjálfkrafa til leigutaka að lágmarksleigutíma loknum. Þannig hefur eignarleiga, og þá sérstaklega fjármögnunarleiga samkvæmt skilgreiningu þessa frumvarps, orðið tæki til sérstakrar skattmeðferðar eftir þeim ákvæðum sem í samningi eru.
    Í öðrum ríkjum hefur þessi aðgreining ekki orðið ofan á heldur hefur hinn fjárhagslegi eigandi (á ensku máli nefnt „economic owner“) verið skilgreindur og á hann lagðir þeir skattar er þurfa þykir en ekki á fjármagnseigandann. Skilgreiningar þessar byggja á því að fjármögnunarleiga sé sú tegund eignarleigu sem ætlað er að fjármagna notkun („kaup“) leigutaka á hlutum svo sem hann væri eigandi þeirra, sbr. t.d. að hann fær yfirleitt rétt til ótímabundinnar leigu á hlut eftir að lágmarksleigutíma lýkur. Eðlilegt þykir því að leggja skattalegu byrðarnar á leigutaka fremur en leigusala og um leið eru leigutaka í atvinnurekstri veittar þær skattaívilnanir sem fyrirtæki í atvinnurekstri njóta hverju sinni. Þannig er reynt að tryggja að mismunun verði sem minnst milli fjármögnunarleigu og kaupa með eignarréttarfyrirvara út frá skattareglum og skattaívilnunarsjónarmiðum. Sú aðferð, sem hér er lýst, hefur ekki komið í veg fyrir eðlilega starfsemi eignarleigufyrirtækja í þeim löndum er hún þekkist í, heldur þvert á móti sýnt að þessi þáttur er ekki sá sem ræður því hvort menn velja fjármögnunarleigu eða aðrar fjármögnunarleiðir í atvinnustarfsemi sinni.
    Fyrst og fremst af þeim ástæðum sem hér eru nefndar, þ.e. vegna skattareglna, hefur reynst nauðsynlegt að skilgreina svonefnda „kaupleigu“ sérstaklega þannig að ljóst sé í lögum hver sé greinarmunurinn á fjármögnunarleigu og hinni sérstöku tegund fjármögnunarleigusamninga, sem kaupleigan er, innan þessa flokks eignarleigusamninga. Verði hins vegar stefnt að því að gera skattalega meðferð fjármögnunarleigu ætíð hina sömu, óháð því hvaða skilmálar eru í fjármögnunarleigusamningnum, verður hinn sérstaki greinarmunur, sem hér er gerður á fjármögnunarleigu og kaupleigu, óþarfur í lögum og mundi skýrast af samningnum sjálfum. Gæti þá skilgreining á fjármögnunarleigu verið á þá leið að hún væri óháð því hvort eignarrétturinn flytjist til leigutaka eða ekki.
    Loks er skilgreindur annar meginþáttur eignarleigu sem hér er nefndur rekstrarleiga.
    Rekstrarleiga er þannig skilgreind sem eignarleiga sem ekki telst vera fjármögnunarleiga og er sú skilgreining í samræmi við erlendar skilgreiningar á rekstrarleigu.
    Af framansögðu er því ljóst að frumvarp þetta greinir eignarleigu í tvær megintegundir eignarleigusamninga, þ.e. fjármögnunarleigu- og rekstrarleigusamninga.
    Þær skilgreiningar, sem byggt er á varðandi eignarleigu í frumvarpi þessu, taka mið af IAS 17 (International Accounting Standard 17) sem er alþjóðlegur staðall um bókhald. Nefndinni er ekki kunnugt um aðra gildandi staðla í þessum efnum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin leggur til skilgreiningar á eignarleigu og tveimur meginþáttum hennar, þ.e. fjármögnunarleigu og rekstrarleigu. Í almennum athugasemdum hér að framan hefur verið gerð grein fyrir hugtökum þessum og vísast til þeirrar umfjöllunar um nánari skýringar.

Um 2. gr.

    Hér er skilgreint hvað átt er við þegar rætt er um eignarleigustarfsemi samkvæmt frumvarpi þessu.
    Greinin skilgreinir eignarleigustarfsemi sem þá atvinnustarfsemi að veita, hafa milligöngu um eða bjóða fram fjármögnun kaupa á lausafjármunum sem og fasteignum til nota í annarri starfsemi en eigin starfsemi eignarleigufyrirtækisins. Hér er því t.d. ekki átt við svonefnd „kröfukaup“ (sem á erlendu máli er nefnt faktoring) eins og sést af skilgreiningu hugtaksins eignarleigu, sbr. 1. mgr. 1. gr. þessa frumvarps.
    Megináherslan er því lögð á það hvort um sé að ræða fjármögnun annarra fyrirtækja og tengda fjármálaþjónustu með eignarleigu- og lánssamningum, sbr. þó ákvæði 6. gr. þessa frumvarps.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að viðskiptaráðherra úrskurði hvaða starfsemi skuli falla undir lögin komi ágreiningur upp um það atriði, en þeim úrskurði verður skotið til dómstóla samkvæmt almennum reglum.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. frumvarpsins er skilgreint hvað átt sé við þegar rætt er um eignarleigufyrirtæki. Ákvæði þetta þarfnast ekki frekari skýringa en þegar hafa komið fram varðandi 1. og 2. gr. þessa frumvarps, svo og í almennum athugasemdum.

Um 4. gr.

    Hér er sett það skilyrði til að mega stunda eignarleigustarfsemi að um sé að ræða hlutafélög sem stofnuð eru í þeim tilgangi og hafi fengið útgefið sérstakt starfsleyfi er viðskiptaráðherra veitir. Þá er gerð sú krafa að hlutafé nemi a.m.k. 10 millj. kr. sem er mun hærri krafa en almennt gildir við stofnun hlutafélaga samkvæmt lögum nr. 32/1978, um hlutafélög. Nefndin telur að slík krafa sé eðlileg fyrir þann atvinnurekstur sem frumvarpi þessu er ætlað að taka til og má í því sambandi m.a. vísa til athugasemda með 7. gr. frumvarpsins.
    Í 2. lið 4. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að meiri hluti stjórnar sé búsettur hér á landi og í 3. lið er það gert að skilyrði að framkvæmdastjóri eignarleigufyrirtækis skuli ávallt vera búsettur hér á landi.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Samkvæmt skilgreiningu 1. gr. frumvarpsins á eignarleigu getur hún tekið jafnt til eignarleigusamninga er hafa að andlagi lausafjármuni, sem og fasteignir.
    Í frumvarpi þessu er ekki gerð tillaga um að undanskilja eignarleigustarfsemi sem stunduð kann að verða vegna fasteigna, en gert ráð fyrir að nánari skilyrði varðandi þann þátt starfseminnar verði ákveðin í reglugerð eftir því sem þurfa þykir.

Um 6. gr.

    Nefndin leggur til að eignarleigufyrirtæki hafi ekki með höndum aðra starfsemi en eignarleigu eða skylda starfsemi á sviði fjármálaþjónustu í nafni þess félags er eignarleigustarfsemi stundar samkvæmt starfsleyfi ráðherra, sbr. 4. gr. frumvarpsins.
    Í samræmi við ofangreint er kveðið á um að tilgangur sé skýrt afmarkaður í samþykktum félagsins þannig að fullt samræmi sé milli samþykktanna og frumvarps þessa varðandi þetta atriði.

Um 7. gr.

    Nefndin telur nauðsynlegt að eignarleigufyrirtæki hafi styrka eiginfjárstöðu þannig að fyrirtækin geti betur staðið af sér þær sveiflur er kunna að verða í atvinnugreininni og áhrif kunna að hafa á starfsemina. Kröfur sem þessar þjóna og hagsmunum lánardrottna eignarleigufyrirtækja og stuðla enn fremur að því að slík fyrirtæki séu ekki rekin í of mörgum og smáum einingum. Lagt er til að eigið fé svari til 8% að lágmarki af heildarskuldbindingum eignarleigufyrirtækisins á hverjum tíma og eru þar með talin víkjandi lán eins og þau eru skilgreind í 3. gr. frumvarpsins. Með heildarskuldbindingum teljast einnig veittar ábyrgðir fyrirtækisins.
    Kröfur um lágmark eigin fjár er m.a. að finna í lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka. Lágmark það, sem lagt er til að gildi um eignarleigufyrirtæki, er nokkru hærra en gildir varðandi viðskiptabanka. Ástæða þess er sú að skv. viðskiptabankalögum skulu bankar leggja til fé í Tryggingarsjóð viðskiptabanka og hefur það áhrif við mat á því hvaða kröfur skuli gerðar varðandi þetta atriði. Nefndin hefur einnig lagt til í öðrum frumvarpsdrögum að verðbréfafyrirtækjum verði settar lágmarkskröfur um eigið fé þannig að svipaðar kröfur eru þá gerðar varðandi eigið fé hjá fyrirtækjum á fjármagnsmarkaði ef frumvörp þessi verða að lögum.

Um 8. gr.

    Með ákvæði þessu er stefnt að því að samningsgerð eignarleigufyrirtækja verði eins skýr og verða má þannig að leigutaki, sem jafnan hefur lakari stöðu en viðsemjandi hans, fái sem gleggstar upplýsingar varðandi eignarleigusamninginn og þau viðskiptakjör er hann undirgengst samkvæmt honum.

Um 9. gr.

    Eins og fram hefur komið í athugasemdum með 1. gr. þessa frumvarps eru eignarleigusamningar oft og einatt allflóknir samningar sem ákvarða réttarstöðu leigutaka og leigusala með sérstökum hætti.
    Til þess að stuðla að snurðulausri framkvæmd eignarleigusamninga leggur nefndin til að í lögum verði ákveðið hvert lágmarksinntak þessara samninga skuli vera. Með því móti er stuðlað að því að réttarstaða samningsaðila verði skýr af ákvæðum samningsins og leita verði því aðeins eftir úrlausn dómstóla í undantekningartilfellum. Þau atriði, sem hér eru upp talin í greininni, eru meðal þeirra atriða sem nefndin telur að verði að vera í samningi svo að framangreindu markmiði verði náð. Ljóst er þó að fjölmargra atriða er samt ógetið er telja verður nauðsynleg eftir sem áður.

Um 10. gr.

    Lagt er til að ýmsar upplýsingar, er starfsmenn eignarleigufyrirtækja kunna að fá í starfinu, svo sem varðandi fjárhagsleg málefni viðskiptamanna og viðsemjenda eignarleigufyrirtækja, skuli ekki gerðar opinberar eða á annan hátt látnar af hendi nema því aðeins að fyrir liggi dómsúrskurður eða skýr lagafyrirmæli.

Um 11. gr.

    Samkvæmt greininni leggur nefndin til að bankaeftirliti Seðlabanka Íslands verði falið eftirlit með starfsemi eignarleigufyrirtækja. Til þess að eftirlitsskylda bankaeftirlitsins sé framkvæmanleg telur nefndin nauðsynlegt að því verði heimilaður aðgangur að gögnum og upplýsingum sem það telur sig þurfa á að halda. Hér er einnig mælt fyrir um skyldu eignarleigufyrirtækja til þess að veita upplýsingar um reksturinn vegna opinberrar hagskýrslugerðar.

Um 12. gr.

    Í 7. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um þær lágmarkseiginfjárkröfur sem gerðar skulu til eignarleigufyrirtækja. Í 12. gr. er kveðið á um afleiðingar þess ef eiginfjárkröfur 7. gr. eru ekki uppfylltar. Samkvæmt ákvæðinu ber eignarleigufyrirtæki að uppfylla lágmarkskröfur innan þess frests er ákvæði þetta heimilar, en eiga að öðrum kosti á hættu að missa starfsleyfi sitt.

Um 13. gr.

    Í 13. gr. er kveðið á um afturköllun starfsleyfis og slit á hlutafélögum er eignarleigustarfsemi stunda og ekki uppfylla þau skilyrði sem starfseminni eru sett að lögum. Ákvæði þetta girðir þó á engan hátt fyrir að gjaldþrotaskipti eignarleigufyrirtækja geti borið að og farið fram með hefðbundnum hætti samkvæmt gjaldþrotalögum, nr. 6/1978.
    Þau ákvæði, sem hér er að finna um heimild ráðherra til afturköllunar á veittu starfsleyfi, ber að sjálfsögðu að líta á sem nauðsynleg neyðarrúrræði sem beitt yrði aðeins þegar sýnt þætti að aðrar leiðir muni ekki bera árangur eða þær aðstæður eru að öðru leyti fyrir hendi að svipting starfsleyfis er óhjákvæmileg að mati ráðherra.

Um 14. gr.

    Þá er lagt til samkvæmt þessari grein að samruni verði því aðeins heimill að til þess hafi fengist leyfi viðskiptaráðherra. Viðskiptaráðherra veitir starfsleyfi einstökum fyrirtækjum og þykir eðlilegt að aflað sé samþykkis þegar um samruna er að ræða. Slíkt samþykki yrði væntanlega veitt nema almannahagsmunir standi í vegi fyrir því. Rök gegn samruna fyrirtækja kunna að vera að hann skerði samkeppni á markaðnum. Hins vegar kann samruni í sumum tilvikum að vera æskilegur til að leysa alvarlegan fjárhagsvanda sem eignarleigufyrirtæki hefur komist í.

Um 15. gr.

    Ýmis ákvæði frumvarps þessa kunna að þarfnast frekari útfærslu með reglugerð er ráðherra setur og er því ráðherra veitt hér heimild til slíkrar reglugerðarsetningar.

Um 16. gr.

    Hér er kveðið á um viðurlög við brotum á ákvæðum þessa frumvarps og skal málsmeðferð vera opinber.
    Ákvæði þetta þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 17. gr. og ákvæði til bráðabirgða.

    Þarfnast ekki skýringa.